Varla þarf að hafa mörg orð um uppgang félagsmiðla að undanförnu, sem hafa sumpart varpað skugga á hefðbundna miðla, sem telja sig þurfa að kynna fréttir sínar þar, en eru þá að leggja félagsmiðlunum til ókeypis efni án hlutdeildar í auglýsingatekjum.

Könnun Pew-stofnunarinnar bendir til þess að vestanhafs fái nær helmingur manna fréttir á Facebook, en minna á öðrum félagsmiðlum. Það er hefðbundnu miðlunum áhyggjuefni, en á móti kemur, að fréttum þeirra er vel treyst af um 80% manna. Aftur á móti treysta aðeins 5% fréttum á félagsmiðlum mjög vel, en 33% treysta fréttum þeirra að einhverju marki. Nær 60% ekki.