*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 27. mars 2017 11:24

„Samfélagstilraun gerð með krökkum“

Í tilefni alþjóðlegrar fjármálalæsisviku verður blásið til ráðstefnu auk þess sem grunnskólabörn geta keppt í fjármálalæsi.

Höskuldur Marselíusarson
Aðsend mynd

Í tilefni þess að vikan 27. mars til 2. apríls eru helgaðir fjármálalæsi ungs fólks víða um heim ætla Stofnun um fjármálalæsi og Samtök fjármálafyrirtækja reyna að efla vitund landans um mikilvægi þekkingar á fjármálálum og sparnaði.

Að því tilefni verður ráðstefna, leikur og 100. heimsókn Fjármálavits í vetur í grunnskóla á landinu auk þess sem Fjármálavit hefur gert myndbönd sem eiga að höfða til ungu kynslóðarinnar.

Viðhorfsbreyting í fjármálum

Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri um fjármálalæsi hjá Samtökum fjármálafyrirtækja segir samtökin eiga aðild að Evrópsku bankasamtökunum sem nýta vikuna til að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar hjá ungu fólki.

„Tónninn var sleginn í morgun upp í kauphöllinni, þegar nokkrir krakkar úr Háteigsskóla voru fengin til þess að hringja inn bjöllunni með Fjármálaráðherra, en þetta hefur verið gert síðustu árin í upphafi vikunnar,“ sagði Kristín.

100. skólinn heimsóttur

„Á morgun munum við svo heimsækja 100. skólann okkar í vetur, en það er Áslandsskóli og ætla tveir hressir ungir leikarar úr Unglingnum í Gaflaraleikhúsinu, þeir Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson sem hafa unnið með okkur nokkur myndbönd að heimsækja skólann með okkur og gera samfélagstilraun með krökkunum.

Svo verðum við með fræðslu strax í kjölfarið inn í stofunum.“ Samtökin ásamt Stofnun um fjármálalæsi verða svo með ráðstefnu um málefnið á miðvikudag milli kl. 8:30 og 10:30 í Háskólabíó.

Styrktu gerð nýrrar bókar um fjármálalæsi

„Þar ætlum við að fara yfir hvernig tekið sé á fjármálalæsi í námskránni í dag, þar ætlar umboðsmaður skuldara að segja okkur frá því að ungt fólk er farið að leita til þeirra í auknum mæli vegna skammtímaskulda og svo verður Gunnar Baldvinsson höfundur bóka um málefnið og Breki Karlsson með okkur í pallborðsumræðum þar sem við ætlum að reyna að kryfja aðeins stöðuna,“ segir Kristín.

„Samtökin ákváðu að styrkja gerð bókar Gunnars um fjármálalæsi, Lífið er rétt að byrja, með því að gefa öllum skólum eintak, til að hvetja kennara til að kynna sér hana og svo erum við nú með í prentun nemendabók upp úr þessari bók sem við ætlum að gefa kennurum sem ætla sér að nota bókina.

Bókin sjálf er fín sem ítarefni fyrir kennara en Gunnar tók síðan það helsta upp úr þessari bók og býr til einfaldari nemendabók til noktunar í 10. bekk, en Lífið er rétt að byrja er hugsuð fyrir 16 ára og upp úr.“

Keppni milli árganga

Meðal annarra atburða í vikunni er að Krakkarún munu sína Tíkallinn, sem eru stutt myndbönd um fjármál og síðan verður keppt í fjármálalæsi.

„Við ætlum að opna fyrir gagnvirkan fjármálaleik miðaðan við hæfni 15 ára unglinga, sem byggir á 64 spurningum sem þyngjast eftir því sem dýpra er farið í viðfangsefnið,“ segir Kristín.

„Hver og einn nemandi ákveður bara hvort hann taki þátt en við ætlum svo að umbuna þeim árgangi í 10. bekk sem mun standa sig best í heildina.“