Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið samfelld makrílvinnsla að undanförnu og hefur hún gengið vel.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Lokið var við að landa um 1.200 tonnum úr Berki NK í gær og þá hófst vinnsla úr Beiti NK sem kominn var með um 1.100 tonn. Þá er Bjarni Ólafsson AK á landleið með 835 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði fyrst hvar afli skipsins hefði fengist.

„Við fengum þessi 1.100 tonn á einum degi úti í miðri Smugunni eða 350 mílur austnorðaustur úr Norðfjarðarhorni. Flotinn hefur verið í Smugunni að undanförnu og hefur farið þar svolítið fram og til baka. Nú er fiskurinn sem veiðist töluvert blandaður hvað stærð varðar, en áður fékkst mest mjög stór fiskur. Vertíðin hefur gengið afar vel til þessa og vinnslan hefur ávallt haft næg verkefni og það er einmitt það sem skiptir mestu máli,“ segir Tómas.