Makrílvinnslan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið samfelld síðustu dagana og unnið var alla verslunarmannahelgina. Skipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa samstarf um veiðarnar og skiptast þau á um að koma með aflann að landi. Bjarni Ólafsson AK kom með rúm 1000 tonn á föstudag, Beitir NK kom með rúm 1600 tonn á laugardag og í gær kom Margrét EA með rúm 1300 tonn. Nú er verið að vinna aflann úr Margréti.

Veiðarnar höfðu gengið þokkalega um tíma en það dró úr þeim í gær. Skipin eru að veiðum í Smugunni og mun gangan sem helst var veitt úr hafa horfið inn í færeyska lögsögu.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki og spurði frétta.

„Við vorum að leggja af stað í land, nýbúnir að dæla 150 tonnum frá Bjarna Ólafssyni. Aflinn um borð er 1377 tonn og við verðum komnir til Neskaupstaðar í fyrramálið. Förum undir strax og löndun lýkur úr Margréti. Það er bara búin að vera þokkalegasta veiði undanfarna daga þar til í gær. Fiskurinn sem við vorum í gekk þá inn fyrir færeysku línuna – því miður tekur hann ekkert tillit til lína, hann hikar ekki einu sinni þegar hann fer yfir þær. Skipin leituðu eftir að þessi fiskur hvarf og nú eru allir búnir að kasta. Áður en við misstum fiskinn sem við vorum í yfir línuna vorum við að fá þokkaleg hol. Stærsta holið hjá okkur var 460 tonn en oft voru þau 200-300 tonn,“ segir Hálfdan.