Fylgi Samfylkingar hefur aukist um nær tvö prósentustig og fylgi Pírata minnkað um rösklega þrjú prósentustig frá síðustu mælingu í þjóðarpúlsi Gallup, sem gerð var dagana 29. júlí til 1. september. Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærstur, með 21,7%, sem er svipað fylgi og í síðustu mælingu sem gerð var í júlí mánuði, og á svipað við um flesta aðra flokka.

Samfylkingin eykur fylgi sitt eins og áður segir, mælist næst stærstur með 15,5% atkvæða, en Miðflokkurinn er þriðji stærstur með 13,4% atkvæða og bætir eilítið við sig. Vinstri græn eru með 12,8%, Viðreisn með 11,4%, Píratar með 9,3%, Framsóknarflokkurinn með 8,3%, Flokkur fólksins 3,8% og Sósíalistaflokkurinn með 3,7%.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um tvö prósentustig milli mánaða og nemur nú helmingi allra sem tóku afstöðu. Næstum 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og sama hlutfall tekur ekki afstöðu eða neitar að gefa hana upp.