Munurinn á Bjartri framtíð og Samfylkingunni felst meðal annars í því að samfylkingarfólk talar saman á sænsku og syngur maístjörnuna þegar það hittist, en það gerir fólk í Bjartri framtíð ekki. Var þetta meðal þess sem kom fram í beinni línu á DV með Heiðu Kristínu Helgadóttur, stjórnarformanni Bjartrar framtíðar.

Hún var meðal annars spurð að því hvað það væri sem skildi að Samfylkinguna og Bjarta framtíð, en síðarnefndi flokkurinn hefur stundum verið kallaður Litla Samfylkingin af gárungum. „Björt framtíð er nýr flokkur. Við erum búin að vera til í eitt ár - en höfum verið að vinna í þessu í tvö ár. Við erum frjálslyndur flokkur og viljum að fólk fái jöfn tækifæri - hvernig það fer svo með þau tækifæri er á þeirra ábyrgð. Við erum opinn og nútímalegur flokkur sem leggur áherslu á að nota netið til samskipta og skoðannaskipta í stað leiðinlegra funda. En fyrir utan allt þetta þá talar fólk í Samfylkingunni saman á sænsku og syngur maístjörnuna þegar það hittist - það gerum við ekki,“ sagði Heiða Kristín.

Hún gerði einnig létt grín að Framsóknarflokknum þegar Framsóknarkona spurði hana hvernig Framsóknarmenn gætu hætt að pissa í skóinn sinn.„Það er til svona tæki hjá Eirberg með skynjara sem pípir mjög hátt þegar þú ert við það að fara að pissa. Ég mæli eindregið með því að þið fjárfestið í svona græju.“

Þá sagðist hún ekki hafa hugmynd um það stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki eða Hægri grænum væri vænlegra. Hvað varðar hugsanlegt stjórnarsamstarf almennt sagði hún Bjarta framtíð setja aðildarviðræður við ESB og stjórnarskrána á oddinn. Flokkar sem væru sammála þessu og væru til í að taka á erfiðum málum væru „golden“.