Samkvæmt nýútgefinni könnun frá Maskínu mælist Samfylkingin nú 8 prósentustigum stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki mælst minna og er nú 35,2%.

Ef gengið yrði til kosninga í dag myndi Samfylkingin fá 27,3% atkvæða og Sjálfstæðisflokkurinn 19%. Framsóknarflokkurinn fengi 10%, Píratar 11% og Vinstri grænir 6%.

Fylgi Samfylkingarinnar hefur hækkað töluvert frá síðustu kosningum þegar það stóð í 9,9%. Fylgi flokksins mælist sérstaklega hátt á Austurlandi, eða 34,6% miðað við 22,2% á Norðurlandi. Meðal þeirra sem eru háskólamenntaðir og 60 ára og eldri er fylgi flokksins í kringum 30% en lítill munur virðist vera meðal mismunandi tekjuhópa.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist hæst hjá þeim sem búa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, eða 21,7% og meðal þeirra sem hafa 1.200 þúsund krónur eða meiri í heimilistekjur. Marktækur munur er einnig á fylgi flokksins meðal kynja en meðal karla er stuðningur Sjálfstæðisflokksins 23,1% en 15% meðal kvenna.

Könnunin fór fram dagana 4. til 16. maí 2023 og voru svarendur alls 1.726 á aldrinum 18 ára og eldri.