Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur segir að Samfylkingin beri pólitíska ábyrgð á ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra um hrefnuveiðar í ljósi þess að Einar sé í ríkisstjórn í krafti Samfylkingarinnar.

Sjávarútvegsráðherra heimilaði í fyrradag veiðar á 40 hrefnum á þessu ári og sendi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem fram kom að ráðherrar Samfylkingarinnar styddu ekki ákvörðunina.

Ágreiningurinn vakti athygli í dönskum fjölmiðlum í gær. Í frétt Ritzau segir að utanríkisráðherrann hafi ráðist harkalega að ákvörðun annars ráðherra í samsteypustjórninni.

„Það er engin leið fyrir Samfylkinguna að víkjast undan því að hún ber ábyrgð á þessari ákvörðun Einars á sama hátt og hann ber ábyrgð á öllum ákvörðunum Samfylkingarinnar,“ segir Gunnar Helgi í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að ráðherrar Samfylkingarinnar geti „spriklað í samstarfinu,“ eins og hann orðar það með því að lýsa því yfir að þeir séu ekki ánægðir, en hin pólitíska ábyrgð sé þó skýr.

„Þau [ráðherrar Samfylkingarinnar] eru að reyna að gefa merki um að þau séu ekki ánægð en þau geta ekki vikist undan því að Einar er í stjórn í þeirra krafti; á grundvelli þeirra þingflokks.“

Pólitískt útspil

Gunnar Helgi segir að það sé ekkert einsdæmi að ráðherrar séu ósammála opinberlega. Hann vísar í því sambandi til nýlegra ummæla Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að hún treysti þjóðinni til að kjósa um aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili. Aðrir ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem tjáðu sig um ummælin tóku ekki undir þau.

„Þorgerður er að lýsa sig ósammála núverandi utanríkisstefnu Íslands og hún er kannski að reyna að vekja umræð um hana. Það er kannski það sem Ingibjörg Sólrún er að gera,“ segir Gunnar Helgi.

Nánar er fjallað um þetta í Viðskiptablaðinu í dag.