Frestur stjórnmálaflokka til að skila ársreikningi fyrir árið 2011 rann út nú um helgina og hafa allir stjórnmálaflokkar á þingi nema Samfylking skilað uppgjöri. Samkvæmt lögum skal skila reikningnum fyrir 1. október ár hvert og voru Vinstri-grænir, Hreyfingin og Borgarahreyfingin einu flokkarnir sem stóðust þau tímamörk. Reikningur Framsóknar barst Ríkisendurskoðun í nótt og reikningur Sjálfstæðisflokksins á föstudaginn.

Samfylkingin er því eini flokkurinn sem ekki hefur skilað ársreikningi . Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun hafa fulltrúar flokksins þó látið vita af því að reikningurinn sé á leiðinni þó ekki hafi verið tiltekið hvenær hann mun berast.

Miðað við þetta er þó óhætt að segja að stjórnmálaflokkarnir hafa heldur betur bætt sig frá síðasta ári þegar skil ársreikninga drógust í mörgum tilvikum fram yfir áramót. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun er nú unnið að því að fara yfir ársreikningana, meðal annars með það í huga að kanna hvort framlög einstaklinga og fyrirtækja séu lögum samkvæmt. Að því loknu verður birtur útdráttur úr hverjum ársreikninganna á vefsvæði Ríkisendurskoðunar.