Þingflokkur Samfylkingarinnar fagnar samkomulagi formanna stjórnmálaflokkanna um endurskoðun eftirlaunalaga, að því er fram kemur í ályktun þingflokksins, frá því í morgun.

„Það eru söguleg tímamót að formenn allra flokka fallist á að vinda ofan af lagasetningunni  2003 og lýsi sig reiðubúna til að bæta þar úr,“ segir í ályktuninni.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, upplýsti á Alþingi í gærkvöld að formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hefðu tekið vel í þá málaleitan formanna stjórnarflokkanna að vinna sameiginlega að viðunandi lausn á málinu.

„Ég geri þess vegna ráð fyrir því að við munum í sumar vinna sameiginlega að þingmáli sem kæmi þá fram á næsta þingi. Af því leiðir að það kemur ekki þingmál frá ríkisstjórninni nú í vor.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði af sama tilefni að málið snerist um það að bæta fyrir mistök sem Alþingi gerði við lagasetningu á eftirlaunum árið 2003. Það væri jákvætt að formenn flokkanna kæmu að því að leysa málið í ljósi þess að það hefði átt upphaf sitt hjá þeim á sínum tíma.

„Þess vegna tel ég að þetta sé farsæl lending og vona að við við getum öll sammælst um það að lagfæra eftirlaunalögin,“ sagði hún.