Samfylkingin segir í drögum að stjórnmálaályktun landsfundar flokksins að fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar sé að skapa þjóðarsátt um ábyrga efnahagsstjórn. Liður í því sé að hefja sem fyrst aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja að þeim loknum samningsniðurstöðu fyrir þjóðaratkvæði.

Í drögunum segir að umsókn um aðild að ESB og undirbúningur að upptöku evru muni styrkja efnahags heimilanna og fyrirtækja í landinu „þar sem gengi krónunnar er líklegt til að styrkjast og vextir að lækka vegna bættra lánskjara landsins erlendis," segir í ályktunardrögunum.

Í þeim segir einnig að, að viðræðum við ESB skuli koma samráðshópur hagsmunaaðila, þar á meðal fulltrúar atvinnuveganna og launafólks, samtaka sveitarfélaga og umhverfis- og jafnréttissamtaka. „Samfylkingin mun í viðræðum tryggja grundvallarhagsmuni atvinnuveganna, sérstaklega íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, og standa vörð um náttúruauðlindir landsins. Hún mun hefja þegar í stað undirbúning að gjaldmiðlaskiptum."