Þegar útlit var fyrir í nótt að þverpólitísk sátt væri að nást í fjárlaganefnd Alþingis um fyrirvara við frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina hætti Samfylkingin við.

Af Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar Alþingis, mátti skilja að umboð hans til að semja hefði verið afturkallað.

Þannig lýsa heimildarmenn Viðskiptablaðsins úr röðum stjórnarandstöðunnar atburðarásinni í nótt.

Ekki náðist í Guðbjart við vinnslu þessarar fréttar en kl. 12 átti að hefjast á ný fundur í fjárlaganefnd.

Oddný G. Harðardóttir, sem einnig er fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, vísaði því á bug, í samtali við Viðskiptablaðið fyrir hádegi, að Samfylkingin hefði kippt að sér höndunum eða hætt við á síðustu stundu. „Það er verið að meta viðmiðin sem allir eru sammála um að þurfi að vera góð," segir hún.

Hún kveðst aðspurð vongóð um að niðurstaða fáist í Icesave-málið í dag.