Samfylkingin sá ekki ástæðu til að senda fulltrúa sína til fundar við Evrópunefnd Búnaðarþings sem hefur starfað síðustu tvo daga. Nefndin boðaði á sinn fund fjölda gesta og óskaði meðal annars eftir því við alla stjórnmálaflokkana sem sæti eiga á Alþingi að þeir sendu sína fulltrúa til að fjalla um Evrópusambandsumsóknina.

Frá þessu er greint á vef Bændablaðsins. Við boðuninni brugðust Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri græn og Hreyfingin. Fulltrúar Samfylkingarinnar létu hins vegar ekki sjá sig og að sögn Sigurbjarts Pálssonar formanns nefndarinnar bárust engin skilaboð frá flokknum.

„Aðstoðarmaður Evrópunefndarinnar var í sambandi við alla þessa flokkar fyrir Búnaðarþing þannig að tíminn var nægur. Það var haft samband við fulltrúa Samfylkingarinnar eins og aðra og það stóð víst til að athuga málið en síðan hefur ekkert frá þeim heyrst, þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað“ segir Sigurbjartur í samtali við Bændablaðið.

Sjá nánar á vef Bændablaðsins.