Samfylkingin hefur ákveðið að fara í fjáröflunarátak á meðal flokksfólks. Þá verður hver einasti félagi í flokknum beðinn um að styrkja Samfylkinguna um 2.690 krónur, þrisvar sinnum á jafnmörgum árum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flokknum. Félagar í Samfylkingunni eru yfir 16.000 þannig að ef vel tekst til í fjáröfluninni gæti flokkurinn safnað yfir 120 milljónum króna með átakinu.

Þá sendi formaður og varaformaður flokksins, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir, bréf til allra flokksmanna til að kynna átakið til undirbúnings fyrir alþingiskosningar 2017. Engum flokksmanni er þó skylt að taka þátt í fjáröfluninni.

Tekjur yfir 140 milljónir

Samkvæmt ársreikningi Samfylkingarinnar námu tekjur flokksins samtals 141.338.131 krónu á síðasta ári en tap var af rekstri hans sem nam 55.273.040 króna. Þá voru skuldir hans í lok árs 128.323.923 krónur og eigið fé á sama tíma 26.588.644 krónur.

Tekjur af framlögum einstaklinga á síðasta ári til flokksins yfir 200.000 krónum námu tæpum 3,9 milljónum króna en önnur einstaklingsframlög námu samtals rúmum tólf milljónum króna á sama tíma.