Fylgi Samfylkingarinnar í kosningunum í gær er nú á svipuð róli og fylgi Alþýðuflokksins var á sínum tíma. Samfylkingin fékk sem kunnugt er 12,9% fylgi í kosningunum í gær sem er lægsta fylgi sem lægsta fylgi flokksins frá því að hann bauð fyrst fram árið 1999.

Til stóð að sameina vinstri væng stjórnálanna undir merkjum Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 1999. Það mistókst og í stað Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista buðu fram Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

Samfylkingin fékk þá tæplega 27% fylgi. Mest náði Samfylkingin 31% fylgi í kosningunum árið 2003 undir forystu Össurar Skarphéðinssonar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var þá að vísu forsætisráðherraefni flokksins, en náði ekki kjöri á þing. Fylgið lækkaði í kosningunum vorið 2007 en Samfylkingin fór þá í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, ríkisstjórn sem kölluð var Þingvallastjórn en sú ríkisstjórn sat við völd haustið 2008 þegar bankakerfið hrundi og baðst síðan lausnar í janúar 2009.

Í kosningunum í apríl 2009 fékk Samfylkingin tæplega 30% fylgi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá fékk flokkurinn jafnframt 20 þingmenn kjörna. Fylgið í kosningunum í gær er rétt rúmlega þriðjungur af því fylgi og flokkurinn tapað rúmlega helmingi þingmanna.

Eins og sést á myndinni hér að neðan var gamli Alþýðuflokkurinn með á bilinu 11-15,5% fylgi á árunum 1983 – 1995. Flokkurinn sat í ríkisstjórn nær allan þann tíma.

Fylgi krataflokkanna (Alþýðuflokks/Samfylkingarinnar) sl. 30 ár.
Fylgi krataflokkanna (Alþýðuflokks/Samfylkingarinnar) sl. 30 ár.
© vb.is (vb.is)

Hér að neðan má sjá fylgi Samfylkingarinnar í könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsvísindastofnunar Háskólans sl. 12 mánuði að viðbættum niðurstöðum kosninganna í gær. Eins og sjá má var fylgi flokksins byrjað að lækka umtalsvert fyrir áramót og segja má að Árni Páll Árnason, sem kjörinn var formaður í byrjun febrúar sl., hafi tekið við sökkvandi skipi. Að sama skapi mætti segja að honum hafi tekist að sigla skipinu í fjöru miðað við úrslit kosninganna í gær þó svo að hann hafi ekki náð að stöðva fylgistapið sem þegar var hafið.

Fylgi Samfylkingarinnar sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
Fylgi Samfylkingarinnar sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
© vb.is (vb.is)

Margir kjósa að líta á Bjarta framtíð sem systurflokk Samfylkingarinnar, en flokkurinn fékk í gær 8,2% fylgi og sex þingmenn. Sé fylgi flokkanna slegið saman, umræðunnar vegna, tapar Samfylkingin engu að síður tæplega 9% fylgi og fimm þingmönnum.