Í nýjum þjóðarpúlsi Gallup, skoðanakönnun sem gerð var dagana 8. til 30. nóvember, meðan stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins stóðu yfir, kemur fram að Samfylkingin hefur bætt við sig fylgi frá Alþingiskosningunum en Miðflokkurinn hefur tapað.

Mælist Samfylkingin nú með næst mest fylgi allra flokka að því er RÚV greinir frá, en flokkurinn mælist með 16,7% fylgi en fékk 12,1% í kosningunum. Miðflokkurinn tapar hins vegar fjórum prósentustigum, og mælist flokkurinn með 6,8% en flokkurinn fékk 10,9% í kosningunum.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist nú 50,5%, en út úr kosningunum fengu flokkarnir þrír 52,9% atkvæða.

Niðurstöður könnunarinnar eru sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24%, en fékk 25,3% í kosningunum
  • Samfylkingin mælist með 16,7% en fékk 12,1% í kosningunum
  • Vinstri græn mælast með 16,1% en fengu 16,9% í kosningunum
  • Píratar mælast með 10,4% en fengu 9,2%
  • Framsókn mælist með 10,4% en fékk 10,7%
  • Viðreisn mælist með 7,1% en fékk 6,8%
  • Miðflokkurinn mælist með 6,8% en fékk 10,9%
  • Flokkur fólksins mælist með 6,5% en fékk 6,9%

Aðrir flokkar mælast samanlagt með rúm tvö prósent, en Björt framtíð er með um helminginn af því, en 5% tóku ekki afstöðu, nálega 5% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa. Tæplega fjögur þúsund manns voru í úrtakinu en svarhlutfallið var 57,8%.