Ef niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem tekin var í gær og í fyrradag gengur eftir heldur borgarstjórnarmeirihlutinn velli með 13 borgarfulltrúa af 23. Í heildina kæmust sjö flokkar inn í borgarstjórn, Samfylkingin yrði stærst með 9 borgarfulltrúa en hann er með tæplega 5% forskot á þann næst stærsta, Sjálfstæðisflokkinn sem fengi 7 fulltrúa.

Hinir flokkarnir fimm sem mælast með menn eru samstarfsflokkar Samfylkingar í núverandi borgarstjórnarmeirihluta, Píratar og VG sem fengju 2 fulltrúa hvor, en flokkarnir hafa allir lagt upp með að halda meirihlutanum og stefnu hans áfram ef þeir fá til þess kjörfylgi.

Þrír flokkar fengju 1 mann hver

Viðreisn er næst með 1 mann, en flokkurinn hefur í mörgum málum lagst á sveif með stefnumálum meirihlutans en í öðrum ekki.

Loks koma þrír flokkar sem talað hafa gegn helstu stefnumálum núverandi meirihluta, það er Miðflokkur og Framsóknarflokkur sem báðir mælast með mann inni, og svo Flokkur fólksins sem ekki mælist inni, en hálft prósentustig skilur á milli Framsóknar og Flokks fólksins.

Sósíalistar mælast svo töluvert frá því að ná inn manni í þessari könnun, en í henni var hringt í 1.987 manns þangað til náðist í 1.500. Þar af svöruðu 75,7% og tóku alls 62,1% sem í náðist afstöðu. 10% sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 18,4% sögðust óákveðin og 9,6% vildu ekki svara.

Hér má sjá skiptingu atkvæða í könnuninni (athugið að borgarstjórn stækkar nú úr 15 í 23 sæti):

 • 32,1% og 9 borgarfulltrúar - Samfylkingin, en fékk 31,9% og 5 fulltrúa í kosningunum 2014
 • 26,3% og 7 borgarfulltrúar - Sjálfstæðisflokkurinn, en fékk 25,7% og 4 fulltrúa 2014
 • 10,3% og 2 borgarfulltrúar - Píratar, en fengu 5,9% og 1 fulltrúa 2014
 • 7,5% og 2 borgarfulltrúar - Vinstri græn, en fengu 8,3% og 1 fulltrúa 2014
 • 6,2% og 1 fulltrúa - Viðreisn, bauð sig ekki fram 2014
 • 5,3% og 1 borgarfulltrúi - Miðflokkurinn, bauð sig ekki fram 2014
 • 3,6% og 1 borgarfulltrúi - Framsóknarflokkurinn, en Framsókn og flugvallarvinir fengu 10,7% og 2 fulltrúa 2014
 • 3,1% og engan borgarfulltrúa - Flokkur fólksins, nýtt framboð
 • 2,3% og engan borgarfulltrúa - Sósíalistaflokkurinn, nýtt framboð
 • 1,9% og engan borgarfulltrúa - Kvennahreyfingin
 • 0,3% og engan borgarfulltrúa - Höfuðborgarlistinn
 • 0,3% og engan borgarfulltrúa - Frelsisflokkurinn
 • 0,1% og engan borgarfulltrúa - Alþýðufylkingin

Hér má lesa eldri fréttir um fylgi flokkanna í borginni:

Hér má lesa skoðanadálka, leiðara og pistla í Viðskiptablaðinu um málefni Reykjavíkurborgar: