*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 11. apríl 2017 15:17

„Samfylkingin mesta eyðingaraflið“

Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokksins segist ekki vilja moð og undanhald.

Ritstjórn
Gunnar Smári Egilsson, lengst til hægri á mynd, tekin á mótmælum vegna frumvarps um slit á aðildarviðræðum við ESB ásamt hjónunum Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og Stefáni Karli Stefánssyni.
Haraldur Guðjónsson

Gunnar Smári Egilsson, sem nýlega lét af störfum sem ritstjóri Fréttatímans þar sem hann er stærsti eigandinn, án þess að greiða öllum starfsmönnum laun um síðustu mánaðarmót, segir Sósíalistaflokkinn fyrir þá sem ekki vilja sameiningu vinstrimanna fram yfir baráttuna.

Hafnar því að ganga til liðs við Samfylkingu

„Samfylkingin er mesta eyðingarafl vinstursins og varð völd að stórkostlegum skaða,“ svarar Gunnar Smári þeim sem vilja að vinstrimenn sameinist frekar en að stofna enn einn flokkinn, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Oddný Harðardóttir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar biðlað til Gunnars Smára og félaga að ganga til liðs við Samfylkinguna.

„Fólk á ekki að tala sameiningu fram yfir baráttuna, moðið í staðinn fyrir stefnuna og undanhaldið í staðinn fyrir sóknina. Auðvitað má fólk gera það, það fer þá bara í Samfylkinguna. En Sósíalistaflokkurinn verður fyrir hitt fólkið.“

Kennir Hannes Hólmstein við brauðmolakenninguna

Heldur Gunnar Smári því jafnframt fram í viðtali á Vísi að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands hafi haldið fram svokallaðri Brauðmolakenningu en hann sé jafnframt einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins.

„Brauðmolakenningin er leiðarljós vinstri flokkana ekkert síður en Sjálfstæðisflokksins,“ segir Gunnar Smári. „Þetta sést ágætlega hjá meirihlutanum í Reykjavík.

Þar er húsnæðisstefnan sú að byggja fyrst fyrir þá sem eiga mestan pening í von um að þeir næst ríkustu geti flutt inn í húsnæðið sem þeir skilja eftir og svo koll af kolli þar til hinn fátæki öryrkinn fær loks íbúð.

Sósíalistaflokkurinn mun reka húsnæðisstefnu sem snýr að því að útvega fyrst húsnæði þeim sem eru í mestum vanda og sárustu neyð.“

Almenningur þurfi að rísa upp

Gunnar Smári segir tíma samræðustjórnmála liðinn. „Það er því líklega að renna upp fyrir fleirum en mér að það þýðir ekkert að tala við auðvaldið um breytingar,“ segir Gunnar Smári.

Almenningur þarf að rísa upp og fleygja því út úr valdastofnunum samfélagsins; út úr ríkisstjórn, út af Alþingi, út úr sveitastjórnum, út úr lífeyrissjóðunum og út úr stofnunum ríkis og sveitarfélaga, sem eiga að þjóna almenningi en þjóna í dag aðeins hinum allra best settu.“

Róttækar samfélagsbætur

Segir hann aldrei fleiri hafa skráð sig í nýjan stjórnmálaflokk á jafnskömmum tíma og hafi skráð sig í flokkinn síðan hann opnaði vefsíðu flokksins seint í gærkvöldi. „Almenningur hefur krafist og barist fyrir róttækum samfélagsbótum frá Hruni en ekki fengið,“ segir Gunnar Smári.

„Þeir flokkar sem fólk hefur lagt traust sitt á hafa allir meira og minna tekið upp stefnumál Sjálfstæðisflokksins um aðstoð við hina betur settu en niðurskurð réttinda og stuðnings við hina verr stæðu.

Sósíalistaflokkurinn byggir á einfaldri og skýrri sýn sósíalista um að ekki verði hægt að ná fram breytingum á samfélaginu sem gagnast almenningi nema með stéttabaráttu, að þeir sem hafa orðið undir óréttlátu kerfi sameinist um að hrinda því af sér.“