*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 26. maí 2014 17:11

Samfylkingin og Björt framtíð með níu menn

Bæði Samfylkingin og Björt framtíð eru með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sjálfstæðisflokkurinn er að festa sig í sessi sem þriðji stærsti flokkurinn í Reykjavík, miðað við nýja könnun MMR. Könnunin var gerð dagana 20.-23. maí og mældist fylgi flokkanna sem bjóða fram í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík eftirfarandi: Samfylking 29,5%, Björt framtíð 24,0%, Sjálfstæðisflokkur 21,1%, Vinstri-græn 9,0%, Píratar 8,2%, Framsóknarflokkur og flugvallarvinir 5,3%, Dögun 2,6% og Alþýðufylkingin 0,2%.

Yrðu þetta niðurstöður kosninganna myndi Samfylkingin fá fimm borgarfulltrúa, Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur fjóra borgarfulltrúa hvor og Vinstri-græn og Píratar einn fulltrúa hvor.

Þátttakendur í könnuninni voru Reykvíkingar 18 ára og eldri, sem voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma. 477 einstaklingar, 18 ára og eldri svöruðu. 

Stikkorð: Reykjavikurborg