Helstu breytingar á fylgi flokka milli mánaða samkvæmt nýjum þjóarpúlsi Gallup eru hjá Viðreisn, Samfylkingu og Vinstri grænum.  Fylgi við ríkisstjórnina stendur í stað milli mánaða, en nær 54% þeirra sem taka afstöðu segjast styðja hana.

Viðreisn bætir við sig tveimur prósentustigum en rösklega 10% þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag. Fylgi við Samfylkinguna minnkar um nær þrjú prósentustig og fylgi Vinstri grænna um nær tvö prósentustig milli mánaða.

Rúmlega 15% segjast ætla að kjósa Samfylkinguna og rösklega 11% Vinstri græn. Fylgi annarra framboða breytist lítið eða um á bilinu 0,1-1,0 prósentustig. Tæplega 25% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, liðlega 13% Pírata, rösklega 8% Framsóknarflokkinn, 8% Miðflokkinn og liðlega 5% Flokk fólksins.

Næstum 4% segjast myndu kjósa aðra flokka en þá sem sæti eiga á Alþingi í dag, þar af 1% Sósíalistaflokk Íslands. Rúmlega 7% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og liðlega 9% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Heildarúrtaksstærð var 5.875 og þátttökuhlutfall var 55,2%, en niðurstöðurnar eru byggðar á netkönnun sem Gallup gerði dagana 31. maí til 1. júní.

Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar nánar:

  • 24,5% - Sjálfstæðisflokkur, sem fékk 25,3% í síðustu alþingiskosningum
  • 15,2% - Samfylkingin, sem fékk 12,1% í síðustu kosningum
  • 13,1% - Píratar, sem fengu 9,2% í síðustu kosningum
  • 11,5% - Vinstri græn, sem fékk 16,9% í síðustu kosningum
  • 10,4% - Viðreisn, sem fékk 6,7% í síðustu kosningum
  • 8,5% - Framsóknarflokkurinn, sem fékk 10,7% í síðustu kosningum
  • 8,0% - Miðflokkurinn, sem fékk 10,9% í síðustu kosningum
  • 5,1% - Flokkur fólksins, sem fékk 6,9% í síðustu kosningum