Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna ( VG ) og Pírata heldur velli í borginni samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði fyrir Morgunblaðið . Miðað við niðurstöður könnunarinnar fengi meirihlutinn 13 borgarfulltrúa af 23.

Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn, með 31,7% fylgi og átta borgarfulltrúa. Er þetta nánast sama fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum 2014 en þá fékk hann 31,9% atkvæða.

Sjálfstæðisflokkurinn er næststærsti flokkurinn í borginni samkvæmt könnuninni með 27,4% fylgi, sem myndi skila honum sjö borgarfulltrúum. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 25,7% atkvæða í kosningunum fyrir fjórum árum.
Vinstri græn mælist með 12,8% fylgi í könnuninni, sem er nokkuð meira en þau 8,3% sem hann fékk í kosningunum 2014. Samkvæmt könnuninni fengi VG þrjá borgarfulltrúa kjörna.

Píratar eru fjórði stærsti flokkurinn í borginni samkvæmt könnuninni með 7,7% fylgi og tvo borgarfulltrúa. Flokkurinn hlaut 5,9% í kosningunum fyrir fjórum árum. Viðreisn er skammt undan með 7,3% og tvo borgarfulltrúa og Miðflokkurinn mælist með 5%, sem myndi skila honum einum borgarfulltrúa. Flokkur fólksins fær 3,1% samkvæmt könnuninni en það dugar ekki til að ná manni inn í Ráðhúsið.

Framsóknarflokkurinn er í kreppu í borginni. Flokkurinn fékk 10,7% í kosningunum 2014 en mælist nú með 2,7%.

Könnunin var gerð 21. til 27. mars. Heildarúrtakið var 3.462 einstaklingar. 1.792 svöruðu og var þátttökuhlutfall 52%.