Samfylkingin tapaði 55,3 milljónum króna í fyrra, samkvæmt reikningi sem birtur hefur verið á vefsíðu Ríkisendurskoðunar. Árið 2012 skilaði flokkurinn hins vegar 41,2 milljóna króna hagnaði.

Tekjur flokksins námu alls 141,3 milljónum króna í fyrra, samanborið við 145,5 milljóna króna tekjur 2012. Ríkisframlög námu 99,9 milljónum króna, framlög frá sveitarfélögum námu 10,9 milljónum, lögaðilar lögðu fram 5,5 milljónir og einstaklingar 16,2 milljónir króna.

Rekstur flokksins kostaði 174,6 milljónir í fyrra, en kostaði 86,8 milljónir árið 2012. Gjöld vegna reksturs fasteigna námu 16,8 milljónum króna í fyrra. Eignir flokksins námu 154,9 milljónum króna um síðustu áramót, skuldir námu 128,3 milljónum og eigið fé var því 26,6 milljónir.