Samfylkingin myndi tapa sjö þingmönnum (af 20) ef gengið  yrði til kosninga nú skv. Þjóðarpúlsi Capacent frá því í febrúar. Athygli vekur að Samfylkingin tapar flestum sínum þingmönnum af landsbyggðinni eða fimm þingmönnum.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag er núverandi stjórnarmeirihluti kolfallinn ef gengið yrði til kosninga nú. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúlsins, brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 13 þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Samstaða bæta við sig átta þingmönnum hvor.

Ef Samfylkingin er skoðuð nánar hefur staða flokksins veikst verulega. Flokkurinn fékk 29,8% fylgi í kosningunum vorið 2009 og 20 þingmenn kjörna (bættu við sig 3 þingmönnum frá kosningunum 2007). Samfylkingin leiddi fjögur kjördæmi, öll kjördæmin nema Norðurkjördæmin tvö, Norðvestur og Norðaustur.

Ef gengið yrði til kosninga nú fengi Samfylkingin 18,7% fylgi og væri hvergi í forystu. Mestu fylgi tapar flokkurinn í Suðurkjördæmi, fékk 28% í kosningunum 2009 en fengi aðeins rúmlega 11% nú. Þá myndi flokkurinn tapa tveimur þingmönnum í því kjördæmi, sem jafnframt er veikasta kjördæmi flokksins nú.

Þá myndi Samfylkingin einnig tapa tveimur þingmönnum í NA-kjördæmi en skv. Þjóðarpúlsinum hefur flokkurinn tapað um 9% fylgi þar. Loks myndi Samfylkingin tapa einum þingmanni í NV-kjördæmi, einum í SV-kjördæmi og einum í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samfylkingin myndi þó halda sínum fjórum þingmönnum í Reykjavíkurkjördæmi suður, þó svo að flokkurinn  hafi tapað um 9,3% fylgi þar.

Af þessu má ráða að af 13 þingmönnum Samfylkingarinnar kæmu 10 þeirra af suðvesturhorninu, en aðeins þrír af landsbyggðarkjördæmunum, þ.e. NA-, NV- og Suðurkjördæmi.