Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar varar eindregið við því að virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hefjist áður en gengið hafi verið frá orkuöflun, línulögnum, losunarheimildum og fleiru. Þetta kemur fram í ályktun fundarins frá því í dag.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni í upphafi fundarins að það væri ekki góð hagfræði við núverandi aðstæður að ráðast í stóriðjuframkvæmdir á suðvesturhorninu sem væru líklegar til að auka á verðbólguþrýstinginn.

Þessi mál komu til umræðu á fundinum í dag og lögðu þau Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, og Mörður Árnason, varaþingmaður og formaður Græna netsins, fram drög að ályktun. Hún var samþykkt með breytingum Ingibjargar Sólrúnar.

Í ályktuninni segir meðal annars að áhersla sé lögð á að meðan beðið sé niðurstaðna rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði ekki farið inn á óröskuð svæði. Þá er í henni, eins og áður sagði, varað við því að virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hefjist áður en gengið hafi verið frá orkuöflun, línulögnum og losunarheimildum og fleiru.

Ályktunin er í heild hér.