Innan Samfylkingarinnar er mikill og vaxandi vilji til þess að bankastjórn Seðlabankans víki.

Sá vilji er víðtækur og nær til þingliðsins og ráðherra. Bankastjórninni sé einfaldlega ekki sætt vegna margvíslegra mistaka sinna.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, kom fram í fjölmiðlum í gær og lýsti þessu yfir og í samtölum Viðskiptablaðsins við Samfylkingarmenn er ljóst að hann endurspeglar viðhorf fjölmargra úr þeirra herbúðum.

„Menn þora ekki að segja þetta upphátt," sagði viðmælandi blaðsins úr þingliðinu.

Sá staðfesti, eins og fleiri, að þetta væri víðtækur vilji.

Kastljósviðtalið við Davíð Oddsson Seðlabankastjóra fyrr í vikunni hafi einungis aukið á gremjuna í garð bankastjórnarinnar. Þar hafi Seðlabankastjórinn meðal annars dregið upp þá mynd að Íslendingar yrðu kennitöluflakkarar.

Samfylkingarmenn, sem blaðið ræddi við í gær, segja að einn liður í því að endurheimta trúverðugleika landsins sé að skipta um bankastjórn. Þeir leggja þó áherslu á að krafan um afsögn bankastjórnarinnar verði ekki lögð fram sem neinn afarkostur.

Enginn vilji sé til þess að fórna stjórnarsamstarfinu vegna þessa. Það sé ekki það sem þjóðin þurfi á að halda um þessar mundir.