Logi Einarsson, nýr formaður Samfylkingarinnar, segir í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni að Samfylkingin gæti verið sá bútur sem vantaði upp á í ríkisstjórn. Samfylkingin beið afhroð í kosningunum og hlaut 5,7 prósent atkvæða í Alþingiskosningum og hlaut þrjá þingmenn kjörna.

Í stöðuuppfærslunni segir Logi að Samfylkingin muni nálgast þá stöðu af fullri ábyrgð og skoða aðkomu flokksins að ríkisstjórn. Þá verða áherslur þeirra stór hluti af málefnasamningi. „Það þarf að ráðast í kerfisbreytingar sem skila þjóðinni meiri arði af auðlindunum, skapa frið á vinnumarkaði og jafna lífskjör í landinum. Loks verður byggja upp innviði og almannaþjónustu fyrir alla,“ tekur Logi fram að lokum.

Hér er hægt að sjá stöðuuppfærsluna í heild sinni:

„Það er svo merkilegt við allskyns vélar að þótt þú sért búinn að raða saman öllum stóru hlutunum, getur ein lítil skrúfa ráðið því hvort vélin kemst í gang. Þannig getur það líka verið með myndun ríkisstjórnar. Samfylkingin getur auðveldlega orðið sá bútur sem þarf til.

Við munum nálgast þá stöðu af fullri ábyrgð og skoða aðkomu okkar að ríkisstjórn, verði áherslur okkar stór hluti af málefnasamningi. Það þarf að ráðast í kerfisbreytingar sem skila þjóðinni meiri arði af auðlindunum, skapa frið á vinnumarkaði og jafna lífskjör í landinum. Loks verður byggja upp innviði og almannaþjónustu fyrir alla.“