Samfylkingin bætir við sig fjórum prósentustigum í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, og er flokkurinn nú kominn í 17,7%, en á sama tíma minnkar fylgi hins helsta ESB aðildarsinnaflokksins, Viðreisnar um tvö prósentustig og fer niður í 10% frá síðasta þjóðarpúlsi.

Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða, eða um 0,1-1,1 prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn heldur naumlega stöðu sinni sem stærsti flokkurinn, eða með 21,6%, og lækkar það eilítið frá síðustu könnun þegar fylgið var nálega 23%.

Rösklega 12% þeirra sem taka afstöðu ætla að kjósa Miðflokkinn, ríflega 11% Pírata, rösklega 10% Vinstri græn, nær 8% Framsóknarflokkinn, liðlega 4% Flokk fólksins og ríflega 3% Sósíalistaflokk Íslands.

Rúmlega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og rúmlega 9% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.
Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað milli mælinga og segjast tæplega 47% þeirra sem taka afstöðu styðja hana.