Talsmenn þingflokka VG og Samfylkingarinnar gera ráð fyrir því að frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave verði dreift á Alþingi á morgun, þriðjudag. Þingflokkur VG afgreiddi málið til þinglegrar meðferðar í dag en þingflokkur Samfylkingarinnara vildi meiri tíma til að fara yfir málið.

Ríkisstjórnin afgreiddi málið frá sér á aukafundi í morgun.

Steinunn V. Óskarsdóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, gerir ráð fyrir því að þingflokkurinn afgreiði málið frá sér á morgun. Hún segir að þingflokkurinn hafi fjallað um málið á fundi sínum í dag en hafi viljað frekari skýringar á nokkrum atriðum. Því hafi málið ekki verið afgreitt úr þingflokknum.

„Það eru minniháttar athugasemdir og þær eru ekki efnislegar heldur áréttingar á orðalagi," segir hún en vill ekki gefa upp um hvað þessar athugasemdir snúast nákvæmlega. „Þetta er ekkert stórmál."

Hún segir að þingflokkurinn hafi óskað eftir svörum við athugasemdunum frá fjármálaráðuneytinu og býst við því að þau berist fyrir fundinn á morgun.

Kynnir sér öll gögn fyrir endanlega afstöðu

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, segir að frumvarpið hafi verið afgreitt úr þingflokknum í dag til þinglegrar meðferðar. Hún áréttar að það þýði ekki að flokkurinn sé búinn að taka afstöðu til málsins.

Sjálf hefur Guðfríður Lilja verið í hópi efasemdarmanna innan VG um málið. „Ég vil kynna mér allar hliðar og öll gögn málsins áður en ég tek endanlega afstöðu," segir hún, þegar hún er spurð út í stuðning sinn við málið.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er frumvarpið sjálft einfalt í sniðum. Það snýst um ríkisábyrgð vegna Icesave. Með frumvarpinu fylgir hins vegar ítarleg greinargerð og fylgigögn af ýmsu tagi.

Stefnt er að því að mælt verði fyrir frumvarpinu á Alþingi í vikunni - jafnvel á fimmtudag.