Hópur átta þingmanna úr röðum Samfylkingar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni og hugverkaiðnaði. Í tillögunni er meðal annars mælt fyrir breytingum á skattalögum þess efnis að einstaklingar fái sérstaka skattaívilnun fjárfesti þeir beint í litlum og meðalstórum fyrirtækjum eða fjárfestingarsjóðum sem fjárfesta í slíkum fyrirtækjum.

Þá leggja þingmennirnir átta til að tryggingagjald á þessi fyrirtæki verði lækkað og aðgangur þeirra að áhættufé verði bættur. „Lækkun tryggingagjalds er mikið hagsmunamál fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Launakostnaður er í flestum tilvikum stærsti kostnaðarliður þeirra og lækkun mundi skila sér í aukinni getu þeirra til að fjárfesta í nýjum verkefnum, auka rannsóknar- og þróunarstarf og fjölga störfum. Flutningsmenn telja brýnt að lagt verði fram frumvarp í þessa veru sem fyrst,“ segir í þingsályktuninni.