49,4% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar „hvert er að þínu mati mikilvægasta kosningamálið í næstkomandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík?“ sögðu að samgöngumál yrðu mikilvægasta kosningamálið í borgarstjórnarkosningunum sem verða 26. maí.

Spurningin, sem var opin þannig að engir svarmöguleikar voru gefnir fyrirfram, var borin upp í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið dagana 1. til 14. febrúar. Svarendur gátu nefnt fleiri en eitt mál sem mikilvægasta kosningamálið. Svör voru því 314 frá 222 manns sem tóku afstöðu og miða hlutfallstölur við fjölda þeirra sem tóku afstöðu en ekki fjölda svara.

Samgöngumálin virðast sérstaklega hugleikin þeim sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en 62% þeirra sögðu samgöngumál mikilvægasta kosningamálið en 30% þeirra sem ætla að kjósa Vinstrihreyfinguna – grænt framboð (VG). 40% þeirra sem segjast ætla að kjósa VG sögðu húsnæðismálin mikilvægasta kosningamálið en 23% þeirra sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru sömu skoðunar. 36% fólks sem aðeins hefur lokið grunnskólaprófi telja samgöngumálin mikilvægasta kosningamálið en 55% þeirra sem hafa meiri menntun.

Næstflestir, 26,4%, sögðu húsnæðismál mikilvægasta kosningamálið, 18,1% nefndu menntamál og 7,8% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar nefndu skipulagsmál. Samanlagt telja því 83,6% að samgöngu-, húsnæðis- eða skipulagsmál verði mikilvægasta kosningamálið.

Þá töldu 7,2% að umhverfismál yrðu mikilvægasta kosningamálið, 6,7% nefndu velferðarkerfið, og 6,2% nefndu fjármál borgarinnar, 3,9% nefndu alraða og öryrkja, 2,7% jafnrétti og minnihlutahópa og 1,7% dagvistun og frístundir. 11,3% nefndu eitthvað annað mál.

Menntamál mikilvægara kosningamál í augum kvenna

Þegar nánar er rýnt í tölurnar sést marktækur munur á afstöðu kynjanna til menntamála. Þannig telja 8% karla að menntamál verði mikilvægasta kosningamálið í kosningunum en 30% kvenna.

Að sama skapi telja 29% þeirra sem hafa lægstar fjölskyldutekjur, tekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði, að menntamálin verði mikilvægasta kosningamálið, en 11% þeirra þar sem fjölskyldutekjur eru meiri en 1.500 þúsund á mánuði. Hins vegar er rétt að taka fram að þessi munur er ekki marktækur. 7% þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi telja að mennamál verði mikilvægasta kosningamálið en 19% þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi eru þeirra skoðunar sem og 22% háskólamenntaðra.

Marktækur munur er hins vegar á afstöðu hópa til þess hvort samgöngumál verði mikilvægasta kosningamálið eftir tekjum. Þannig telja 71% þeirra sem hafa fjölskyldutekjur á bilinu 1.250 þúsund til 1.499 þúsund og 73% þeirra sem hafa 1.500 þúsund krónur eða meira í fjölskyldutekjur að samgöngumálin verði mikilvægasta kosningamálið. Aðeins 34% þeirra sem hafa fjölskyldutekjur undir 400 þúsund krónum eru sama sinnis og 33% þeirra sem hafa tekjur á bilinu 400 þúsundum upp í 549 þúsund.

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið dagana 4. til 31. janúar sögðust 29,1% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 25,7% Samfylkinguna, 13,3% VG, 13,3% Pírata, 2,9% Framsóknarflokkinn, 2,4% Bjarta framtíð, 6,4% Viðreisn, 4,8% Flokk fólksins og 1,1% Miðflokkinn.