Borgarskipulag sem miðar að auknu vægi almenningssamgangna er raunhæfur valkostur fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í rannsókn Jóhönnu Helgadóttur sem nýverið lagði fram meistararitgerð um raunhæfni samgöngumiðaðs skipulags á höfuðborgarsvæðinu.

Í ritgerð hennar kemur m.a. fram að skipulag höfuðborgarsvæðisins hafi frá upphafi verið miðað við notkun almenningssamgangna en að frá sjöunda áratug síðustu aldar hafi skipulag í auknum mæli miðast við notkun einkabílsins. Frá árinu 1962 til 1987 hafi farþegum strætisvagna fækkað um 21,5% þrátt fyrir að íbúafjöldi í Reykjavík og á Seltjarnarnesi hafi aukist um 7,4% á sama tíma. Til þess að samgöngumiðað skipulag verði að veruleika á höfuðborgarsvæðinu er þörf á góðri upplýsingagjöf til almennings og öflugu samráði að mati Jóhönnu.

Allt er skipulagt út frá einkabílnum

Hún segir að helsta einkenni samgöngumiðaðs skipulags sé byggðakjarni í kringum samgöngumiðstöðvar og uppbygging sem hvetur til vistvænni ferðamáta og styður við öflugt almenningssamgöngukerfi. „Það eru vegalengdir og þéttleiki og fleiri þættir sem miða að því að stuðla að auknum gönguvænleika og að fólk sé tilbúið að nýta sér almenningssamgöngur. Á höfuðborgarsvæðinu í dag er allt skipulagt út frá einkabílnum og því eru sveitarfélög ekki skipulögð með tilliti til almenningssamgangna,“ segir Jóhanna.

Þá segir hún að ástæðan fyrir því að almenningssamgöngur séu illa nýttar sé vegna þess að það er ekki unnið að skipulagi þeirra samhliða borgarskipulagi. „Á höfuðborgarsvæðinu eru byggð hverfi og strætisvagnaleiðum komið þangað fyrir eftir á. Fólk er síður tilbúið til þess að nýta sér almenningssamgöngur ef það þarf að bíða lengi við umferðarþungar götur og ganga leiðir að biðstöðvum strætisvagna. Helsti kosturinn við samgöngumiðað skipulag er að almenningssamgöngur eru samþættar í byggðaskipulagið og unnið samhliða að því frá fyrstu ákvörðunartöku og alveg niður í smæstu einingarnar,“ segir Jóhanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .