Kristján L. Möller, samgönguráðherra situr í dag alþjóðlega ráðstefnu um farsíma og farsímavæðingu í Barcelona, GSMA Mobile World Congress, og segir Róbert Marshall, aðstoðarmaður ráðherra, að um sé að gagnlega kynnisferð sem einkennist af fyrirlestrum, málfundum og óformlegu spjalli. „Hérna eru staddir ráðherrar ásamt sendinefndum frá allmörgum löndum og menn eru að hlusta og læra. Hérna er meðal annars verið að fjalla um næstu kynslóð farsíma, þá fjórðu, sem nefnd er 4G,” segir Róbert.

GSMA er alþjóðleg verslunarsamtök sem samanstanda af tæplega 700 farsímafyrirtækjum á yfir tvöhundruð svæðum og löndum, sem þjóna ríflega tveimur milljörðum notenda, eða um 82% af farsímanotendum á heimsvísu. Á ráðstefnunni eru m.a. kynntar nýjungar í greininni á sviði tækni, þjónusta og þróunar, og sitja hana margir helstu forystumenn í farsíma- og netiðnaðinum, ásamt fulltrúum afþreyingar- og skemmtanaiðnaðarins. Helsta markmið GSMA er að tryggja að farsímar og þráðlausar tengingar virki og séu aðgengilegar um heim allan

Minni áhersla á fyrirframgreiningu æskileg

„Við erum m.a. að kynnast regluverkinu um farsíma og netmál í hinum ýmsu löndum. Á Íslandi er mikil áhersla lögð á greiningu á mörkuðum og drjúgur hluti af starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar fer í slíkar athuganir, í samræmi við lög,” segir Róbert. „Auðvitað ætti þó að gilda um þessa starfsemi sömu reglur og um annan samkeppnisrekstur, þar sem haldið væri uppi eftirliti og gripið inn í þegar reglurnar væru komnar, í stað þess að leggja gífurlega áherslu á greiningu á mörkuðunum fyrirfram.”