Barry Eichengreen, hagfræðiprófessor við Berkeley-háskóla og einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í hagsögu, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann telji mikilvægt að samhæfa eftirlit með bankastarfsemi í Evrópu.

Orðrétt segir hann í viðtali við blaðið:

Það er brjálæði að á einu gjaldmiðilssvæði skuli vera mismunandi eftirlit með bankastarfsemi í evruríkjunum 17. Þegar vandamál koma upp í bankakerfi eins ríkis, eins og til dæmis í Þýskalandi, hefur það áhrif í Grikklandi, á Spáni og í fleiri ríkjum. Þegar Þjóðverjar sníða eftirlit með eigin bankastarfsemi skortir þá hvata til að gefa fullnægjandi gaum að áhrifunum annars staðar á evrusvæðinu. Evrópa þarf hið minnsta mun samhæfðara eftirlit með fjármálastarfsemi.

Eichengreen segir að skuldabyrði evruríkjanna Grikklands, Írlands og Portúgals mjög íþyngjandi. Ríkin eigi þess ekki kost að fella gengið eins og Íslands. Því er brugðist við með það sem hann kallar innri gengisfellingu. Hún felur í sér að laun, eftirlaunagreiðslur og aðrir kostnaðarliðir séu lækkaðir. Skuldastaða ríkjanna sé hins vegar óbreytt og það feli í sér innri mótsögn. Niðurskurður dregur úr veltu í hakerfinu og getu ríkisins til að greiða niður skuldir.

„Þess vegna tel ég að fari ríkisskuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu upp fyrir 100% muni það kalla á endurskipulagningu skulda," segir Eichengreen í viðtali við Morgunblaðið .