Samhentir-Kassagerð ehf. hefur gengið frá kaupsamningi um kaup á öllum hlutabréfum Icelandic Group í VGI (Valdimar Gíslason ehf.), en seljandi tilkynnti í morgun til Kauphallarinnar að gengið hefði verið frá sölunni.

Í tilkynningu frá kaupendum segir að við sameiningu félaganna verði til leiðandi félag sem veltir vel yfir tveimur milljörðum króna á ári. Einnig var undirritaður langtímasamningur um sölu á umbúðum til Icelandic Group og samstarfsfélaga.

Kaupverð VGI er trúnaðarmál en í tilkynningu Icelandic Group segir að áætlaður söluhagnaður félagsins nemi um 105 milljónum króna og tekjufærist hann á öðrum ársfjórðungi ársins 2007.

Að sögn Jóhanns Oddgeirssonar, framkvæmdastjóra Samhentra-Kassagerð, eru mikil tækifæri fólgin í fyrirhugaðri sameiningu félagana. ?Stærra félag getur boðið viðskiptavinum sínum upp á mun breiðara vöruúrval og betri þjónustu. Það er mikil samlegð í þessari sameiningu sem við teljum vera mjög jákvæða fyrir markaðinn?.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group tekur í sama streng. ?Það er ekki lengur nauðsynlegt fyrir okkur að reka eigið umbúðafyrirtæki. Við berum mikið traust til nýrra eigenda og teljum að hagsmunum okkar og framleiðenda okkar sé betur borgið með þjónustu og vöruvali frá stærra og sterkara félagi?.

Samhentir Kassagerð ehf. er leiðandi fyrirtæki í sölu og framleiðslu á umbúðum, rekstrarvörum og pökkunarvélum fyrir sjávarútveg, iðnaðarframleiðendur, heildsala og endursöluaðila. Fyrirtækið var stofnað árið 1996 og starfsmenn fyrirtækisins eru 10 talsins.

VGI hefur verið leiðandi fyrirtæki í sölu á umbúðum vélum og rekstrarvörum til matvælafyrirtækja í yfir þrjá áratugi. Á síðasta ári keyptu Icelandic umbúðir Valdimar Gíslason ehf og sameinuðust fyrirtækin undir nafni VGI um mitt síðasta ár og eru starfsmenn þess 20.