Hluthafafundur Samherja hf. samþykkti á föstudaginn tillögu stjórnar félagsins um að skipta starfseminni upp í tvö aðskilin félög. Þetta þýðir að ekkert móðurfélag verður starfandi heldur verður sérstakt félag um innlendu starfsemina annars vegar og þá erlendu hins vegar. Innlendi hlutinn verður í Samherja hf. og sá erlendi í Samherja Holding ehf.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að ákvörðunin lúti einungis að því að greina fjárfestingarstarfsemi Samherja í tvennt. Hann segir að höfuðstöðvar Samherja séu á Akureyri og þar vilji félagið vera. Samþykkt hluthafafundar um að skipta starfseminni í tvö aðskilin félög þýðir að hægt væri að færa erlendu starfsemina úr landi með mjög einföldum hætti.

„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort eignarhaldsfélag um erlenda starfsemi Samherja verði staðsett erlendis," segir Þorsteinn Már. „Sú reynsla sem Samherji hefur haft af íslenskri stjórnsýslu undanfarin sjö ár í harðri aðför Seðlabankans að félögunum kann að leiða til þess að skynsamlegt kunni að vera að eiga ekki allt undir slíkri stofnun og ráðamönnum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .