Samherji hf. hefur aukið hlut sinn í Eimskipi undanfarinn mánuð samkvæmt uppfærðum hluthafalista félagsins og er hlutur Samherja í félaginu nú 34,5%.

Í lok maí var Samherji Holding skráð fyrir 51,5 milljónum hluta í Eimskipi, um 29,5% af öllu hlutafé samkvæmt hluthafalista félagsins. Ætla má þó að félagið hafi engu síður átt yfir 30% hlut í Eimskip í gegnum annars konar fjármálagerininga þar sem Samherji hafði ekki tilkynnt um að hafi farið undir 30% hlut frá því Samherji fór yfir 30% yfirtökumörkin í október á síðasta ári og gerði yfirtökutilboð í Eimskip.

Í uppfærðum hluthafalista Eimskips frá lokum júní er Samherji skráð fyrir tæplega 60,5 milljónum hluta eða um 34,5% af öllu hlutafé og er heildarmarksvirði hlutar Samherja í félaginu um 23,1 milljarður króna.

Í fyrra boðaði Samherji tvívegis yfirtökutilboð í Eimskip. Í mars á síðasta ári fór hlutur Samherja í Eimskipi yfir 30% og hugðist félagið gera yfirtökutilboð en fékk undanþágu frá yfirtökuskyldu frá fjármálaeftirliti Seðlabankans þar sem Samherji bar við breyttar efnahagsaðstæður í faraldrinum.

Í október á síðasta ári fór hlutur Samherja að nýju yfir 30% og varð félagið því aftur yfirtökuskylt. Yfirtökugengið nam 175 krónum í það skiptið og tók aðeins um 0,1% hluthafa tilboðinu . Síðan þá hefur gengi bréfa félagsins meira en tvöfaldast.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafði ekki miklar væntingar til þess að hluthafar myndu taka því tilboði. „Að sjálfsögðu tala ég ekki fyrir hönd lífeyrissjóða eða annarra eigenda, en við búumst við því að lífeyrissjóðir verði áfram eigendur. Það er bara verið að klára það sem var byrjað á í mars," sagði Þorsteinn í samtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári.

Hlutabréf Eimskips hafa verið á miklu skriði síðan að félagið var sektað um 1,5 milljarða af Samkeppniseftirlitinu um miðjan júní, sem er hæsta sekt í sögu Samkeppniseftirlitsins. Á sama tíma gaf félagið frá sér jákvæða afkomuviðvörun . Frá þeim tíma hafa hlutabréf félagsins hækkað úr 287 krónum í 382 krónur, um 33 prósentustig.

Í lok júní keypti Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips og sonur Þorsteins Más, hlutabréf í Eimskip fyrir um 30 milljónir króna en hann er meðal stærstu hluthafa félagsins. Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi feðganna, er forstjóri Eimskips.

Fréttin var uppfærð með nánari upplýsingum um hlutafjáreign Samherja í Eimskip fyrir birtingu uppfærðs hluthafalista Eimskips.