Samherji hf. ber höfuð og herðar yfir önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hvað veltu varðar. Félagið velti 33,5 millörðum króna á árinu 2007 og hafði veltan aukist um 41% frá árinu áður. Aukna veltu má skýra með vaxandi umsvifum félagsins erlendis.

Hagnaður Samherja eftir skatta varð 4.723 milljónir króna og starfsmannafjöldinn er 723, sakvæmt upplýsingum úr bókinni 300 stærstu sem tímaritið Frjáls Verslun gefur út árlega.

Samherji hf. var í 19. sæti á lista Frjálsrar verslunar yfir öll íslensk fyrirtæki.

HB Grandi hf. er annað stærsta sjávarútvegsfyrirtækið 2007 með 12,8 milljarða króna veltu og dróst veltan heldur saman á milli ára. Hagnaður varð 1.867 milljónir króna og fjöldi starfsmanna 600.

Í þriðja sæti er Síldarvinnslan hf. með 8,7 milljarða veltu.

Röð stærstu sjávarútvegsfyrirtækja hefur ekki breyst mikið frá því sem var árið 2006 nema hvað Ísfélag Vestamannaeyja hf. fer úr tíunda sæti í það fjórða.