Upptaka af Helga Seljan fréttamanni Ríkisútvarpsins er birt í nýrri stiklu á youtube rás útgerðarfélagsins Samherja vegna þáttar sem félagið hyggst birta á morgun um ásakanir á hendur félaginu.

Samherjamálið svokallaða hefur haft marga anga, en framan af snerist ásakanir á útgerðarfélagið um brot á gjaldeyrisreglum sem leiddu til rannsóknar og húsleitar á vegum Seðlabanka Íslands. Í nóvember síðastliðnum komu svo fram nýjar ásakanir um mútugreiðslur í Kveiks þætti á RÚV.

Fyrra málinu lyktaði með því að Hæstiréttir felldi niður ákvörðun Seðlabankans um 15 milljóna króna stjórnvaldsekt á hendur félaginu úr gildi 1. september 2016.

Í Kveiksþættinum frá því í fyrra, sem var í umsjón Helga Seljan, komu síðan fram nýjar ásakanir um mútur og spillingu í suðurafríkuríkinu Namibíu, sem félagið hefur látið norska lögmannsstofu rannsaka. Þeirri rannsókn er nú lokið en skýrslan hefur ekki verið birt.

Í stiklunni sem sýnir kynningu á komandi sjónvarpsþætti sem virðist fjalla um eldri ásakanirnar eru eftirfarandi setningar hafðar upp úr upptökunni:

Helgi Seljan: „Þú mátt, þú mátt ekki segja þeim frá þessu sem ég sagði við þig þarna á fundinum um allt saman.“
Viðmælandi: „Nei,nei nei nei“
Helgi Seljan: „Ég verð að treysta því“
viðmælandi: „Já, já já já“

Síðan kemur vísun í rannsókn og húsleit Seðlabankans árið 2012 á Samherja þar sem Stefán Jóhann Stefánsson upplýsingafulltrúi Seðlabankans svarar því til að stofnunin færi ekki í svona rannsókn nema með rökstuddan grun um brot.

Þar á eftir kemur önnur klippa úr leynilegu upptökunni af Helga Seljan:

Helgi Seljan: „Ég held að það hafi verið þanngi sem ég gerði það.
Af því að ég gat ekki fengið neinn til að staðfesta fyrir mér.“

Loks spyr Jón Óttar Ólafsson, sem kynntur er sem afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, en hann hefur unnið fyrir Samherja m.a. komið að starfsemi félagsins í Namibíu, einhvern utan myndavélar hvaðan ásakanirnar komi og hvernig þetta geti átt sér stað.

Stiklan endar svo á því að fólk er hvatt til að fylgjast með á morgun, en stiklan var hlaðin upp í dag 10. ágúst og hefur 138 sinnum verið skoðuð þegar þetta er skrifað. Athygli vekur að ekki er hægt að skrifa athugasemdir við stikluna sem sjá má hér að neðan.