Kröfu Samherja og tengdra fyrirtækja um að fá afhent gögn, sem sérstakur saksóknari hefur undir höndum vegna rannsóknar á meintum gjaldeyrisbrotum fyrirtækisins, var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Greint er frá þessu á fréttavef RÚV .

Húsleit var gerð hjá Samherja fyrir þremur árum síðan þar sem lagt var hald á ákveðin gögn og rafræn gögn afrituð. Megninu af gögnunum sem hald var lagt á hefur verið skilað, en sérstakur saksóknari hefur enn fimm kassa af gögnum í sinni vörslu. Samherji og dótturfélög fyrirtækisins fóru fram á að gögnunum yrði skilað og afritum eytt, en héraðsdómur féllst ekki á kröfuna.

Ólafur Þ. Skúlason, sérstakur saksóknari, segir í samtali við RÚV að 93% gagnanna hafi þegar verið skilað. „Málinu er ólokið og því ekkert því til fyrirstöðu að Semherji leggi fram nýja kröfu um að fá gögnin afhent þó fyrri kröfum hafi verið vísað frá.“

Hann segir málið langt komið í meðferð hjá embættinu, en gefur þó ekki upp hvenær ákvörðunar sé að vænta.