*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Innlent 31. mars 2020 14:42

Samherji fær undanþágu frá yfirtöku

Samherji hefur fengið undanþágu frá fjármálaeftirliti Seðlabankans um að gera yfirtökutilboð í Eimskip.

Ritstjórn
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.
Haraldur Guðjónsson

Samherji Holding, systurfélag Samherja, hefur fengið undanþágu frá fjármálaeftirliti Seðlabankans um að gera yfirtökutilboð í Eimskip.

Samkvæmt tilkynningu frá Samherja segir að eftirlitið telji að núverandi aðstæður á fjármálamarkaði í ljósi Covid-19, bæði hér á landi og í heiminum öllum, séu með þeim hætti að skilyrði 5. mgr. 100. gr. verðbréfaviðskiptalaga um sérstakar aðstæður séu uppfylltar. 

Samherji boðaði yfirtökutulboð í Eimskip 10. mars eftir að hafa farið yfir 30% mörkin og eignast 30,11% hlut í félaginu. Þá sagði félagið ætla að gera yfirtökutilboð innan fjögurra vikna eins og lög kveða á um. Félagið óskaði eftir undanþágu tíu dögum síðar vegna óvenjulegra aðstæðna í efnahagsmálum og fjármálamörkuðum. Í kjölfarið seldi félagið sig niður í 29,99% hlut í Eimskip. 

Óheimilt að gera yfirtökutilboð innan sex mánaða

„Fjármálaeftirlitið telur að verndarhagsmunir yfirtökureglna laganna séu tryggðir og að með veitingu undanþágu frá tilboðsskyldu sé, eins og atvikum málsins er háttað, ekki gengið á minnihlutavernd annarra hluthafa. Að endingu vekur fjármálaeftirlitið athygli á því að skv. 4. mgr. 102. gr. verðbréfaviðskiptalaga er Samherja Holding ekki heimilt að leggja fram yfirtökutilboð í sex mánuði frá því að félagið lýsti því yfir að það hygðist ekki gera yfirtökutilboð," segir í tilkynningunni.

„Það eru mjög sérstakar og óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Við töldum því ekki skynsamlegt að tilboð um yfirtöku færi fram í skugga þessa umróts en við vonum að aðstæður verði heppilegri síðar. Eins og við höfum sagt áður þá hefur trú okkar á framtíð Eimskips ekkert breyst,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja Holding.

Stikkorð: Eimskip Samherji yfirtökuskylda yfirtaka