Guðbjörg Matthíasdóttir á 27% hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins, Óskar Magnússon, útgefandi blaðsins, á 20% og útgerðarrisinn Samherji á 20%. Aðrir eigendur, sem eru sjö talsins, eiga undir 10% hver. Samtals eiga þrír stærstu eigendur fjölmiðilsins því 67% hlut í útgáfufélaginu. Þetta kemur fram í ársreikningi Þórsmerkur, sem á Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Þórsmörk lagði Árvakri til 240 milljónir króna í nýju hlutafé á árinu 2010. Til viðbótar eru 228 milljónir króna til reiðu inni í félaginu og heimild er í samþykktum þess að hækka hlutafé um rúmlega 300 milljónir króna til viðbótar.

Keyptu 2009

Þórsmörk keypti Árvakur í febrúar 2009. Þá var greint frá því opinberlega að í eigendahópnum væru meðal annars Guðbjörg Matthíasdóttir, Óskar Magnússon, Gísli Baldur Garðarsson, Gunnar B. Dungal, Þorgeir Pálsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Pétur H. Pálsson. Ekki hefur áður verið greint frá því hvernig eignarhlutir þeirra skiptast. Sá hópur lagði 651 milljón króna inn í Þórsmörk á árinu 2009 og notaði hluta upphæðarinnar til að kaupa Árvakur.

Útgerðir eiga tæpan helming

Í ársreikningi Þórsmerkur, sem skilað var inn til ársreikningaskráar 1. september síðastliðinn, kemur fram að hluthafar félagsins séu tíu. Stærsti eigandi félagsins, með 27% hlut, er Hlynur A ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda útgerðarfélagsins Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Tvö félög, Áramót ehf. og Krossanes ehf., eiga sitthvort 20% hlut. Eigandi Áramóta er Óskar Magnússon en eigandi Krossaness er Samherji á Akureyri. Því eiga eigendur tveggja stórra útgerða á Íslandi samtals 47% í Morgunblaðinu. Einungis þrír eigendur eiga meira en 10% hlut. Þorsteinn Már Baldvinsson er annar aðaleigenda Samherja, sem skráð er fyrir fimmtungi í Þórsmörk, og þar með Morgunblaðinu.

Nánar má lesa um blaðið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Þar má meðal annars lesa um:

  • Fjársvik fyrrverandi stjórnarformanns Fjárverndar-verðbréfa
  • Peningastefnuna
  • Launahækkanir á almennum markaði
  • Hagnað Samherja árið 2010
  • Umfjöllun um mikilvægi einkaleyfa
  • Útrás boot camp
  • Viðtal við frumkvöðla í miðbænum, Hemma og Valda.