Samherji ætlar að greiða starfsfólki fyrirtækisins í landi 378 þúsund króna aukalega ofan á umsamda 50 þúsund króna launauppbót í jólamánuðinum. Þetta gera 428 þúsund krónur sem hver þeirra tæplega 500 starfsmenn Samherja í landi geta átt von á að fá í launaumslaginu.

Það eru Fiskifréttir sem greina frá málinu og vísa til vefsíðu Samherja.

Ætla má að þessi aukasporsla kosti Samherja um 190 milljónir króna. Þetta er ekki eina aukagreiðslan sem Samherji hefur greitt starfsfólki sínu en í maí greiddi það aukalega 72 þúsund krónur ofan á orlofsuppbótina í sumar. Þessu samkvæmt nema greiðslur Samherja 450 þúsund krónum á hvern starfsmann umfram kjarasamninga.

Samherji hagnaðist um 8,8 milljarða króna á síðasta ári og var það methagnaður í sögu fyrirtækisins. Á vef Samherja segir að rekstur landvinnslu hafi gengið vel á árinu og starfsfólkið skilað góðu verki.