Samherji hefur dregið sig út úr hópi fjárfesta sem hugðist taka yfir MP banka. Þorsteinn Már Baldvinsson staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið rétt í þessu.

Aðspurður sagðist Þorsteinn að hann þekki ekki hvort kaupin á MP banka séu nú í uppnámi.

„Ég þekki það ekkert. Við erum að draga okkur út úr þessu. Það er niðurstaðan og vonandi klára aðrir þetta,“ segir Þorsteinn í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vildi ekki gefa upp hvaða ástæða lægi að baki því að Samherji drægi sig út úr kaupunum.

Eyjan greindi fyrst frá ákvörðun Samherja í dag.

Tilkynnt var í febrúar að félag í eigu Skúla Mogensen, Samherji, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og nokkrir fjársterkir einstaklingar munu tilkynntu í febrúar myndu eignast þorra hlutafés í MP banka gegn fimm milljarða króna eiginfjárframlagi. Viðskiptablaðið hafði fjallað ítarlega um viðræður þess efnis vikurnar áður. Gert var ráð fyrir því að ferlinu myndi ljúka í febrúar en það dróst á langinn.

Stjórnendur nokkurra lífeyrissjóða eru meðal þeirra sem hafa skoðað aðkomu að þessu máli. Þrír þeirra hafa dregið sig í hlé.