Hagnaður Samherjasamstæðunnar, þ.e. af starfsemi á Íslandi og erlendis, nam 48 milljónum evra, tæplega átta milljörðum króna, á árinu 2010. „Starfsemin gekk vel á árinu 2010 og hefur einnig gert það á þessu ári,“ sagði Sigursteinn Ingvarsson, fjármálastjóri Samherja, í samtali við Viðskiptablaðið.

Velta fyrirtækisins jókst um næstum 100 milljónir evra milli ára, nam um 420 milljónum evra, tæplega 70 milljörðum króna, samanborið við 322 milljónir evra árið 2009. Veltuaukningin nemur um 16,5 milljörðum króna.

30 milljarða eigið fé

Eigið fé fyrirtækisins var í lok árs í fyrra um 185 milljónir evra, 30,5 milljarðar króna. Heildareignir námu 535 milljónum evra, tæplega 90 milljörðum króna, og skuldir voru 350 milljónir evra, um 60 milljarðar króna. Á árinu 2010 greiddi Samherji niður skuldir um 60 milljónir evra, um tíu milljarða króna.

Heildarstarfsmannaf jöldi fyrirtækisins var um 700 manns á árinu 2010.

Lítill hluti á Íslandi

Á milli 70 og 80 prósent af starfsemi Samherja fer fram utan Íslands. Á milli 30 og 40 prósent af tekjum fyrirtækisins má rekja til veiða við Afríkustrendur samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Afurðirnar eru síðan seldir á mörkuðum í Evrópu og víðar. Sé miðað við 35% af heildartekjum voru tekjurnar vegna veiða við Norður-Afríku um 24,2 milljarðar króna, eða 147 milljónir evra.

Milljarður í arð

Stjórn fyrirtækisins, sem skipuð er þeim Kristjáni Vilhelmssyni, Eiríki Jóhannssyni og Óskari Magnússyni, lagði til að 6,1 milljón evra, rúmlega milljarður króna, yrðu greiddar út í arð vegna ársins 2010. Stærstu eigendur Samherja eru Kristján V. Vilhelmsson (33%), Fjárfestingafélagið Fjörður ehf. (13%), sem Kristján og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri eiga saman, Bliki ehf. (11%) og Eignarhaldsfélagið Steinn (33%), sem er að meirihluta í eigu Þorsteins Más. Aðrir hluthafar eiga rúmlega 10% hlut.