Hagnaður útgerðarfyrirtækisins Samherja í fyrra nam 87,9 milljónum evra, sem samsvarar um 11,4 milljörðum króna. Árið 2014 nam hagnaður fyrirtækisins 68,8 milljónum evra.

Eignir félagsins námu í árslok 573 milljónum evra, en voru 475,6 milljónir í lok árs 2014. Skuldir námu um áramótin 16,6 milljónum evra, og eigið fé nam 556,3 milljónum evra.

Samherji er móðurfélag fyrirtækja á borð við Samherja Ísland ehf., Útgerðarfélags Akureyringa ehf. Kaldbaks ehf. og Krossaness ehf. Þá á félagið 37,5% hlut í Olíuverzlun Íslands og 45% hlut í Síldarvinnslunni Neskaupsstað.

Stærstu hluthafar Samherja eru Eignarhaldsfélagið Steinn ehf. með 36,1% hlut, Kristján V. Vilhelmsson með 35,7%, Fjárfestingafélagið Fjörður ehf. með 14,8% hlut og Bliki ehf. með 11,7% hlut. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 9,5 milljónir evra í arð til hluthafa á árinu 2016 vegna rekstrarársins 2015. Samsvarar það um 1,2 milljarði íslenskra króna.