Samherji trónir í efsta sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki líkt og síðustu fjögur ár. Þar á eftir kemur Norðurál, Icelandair Group, Össur og Stálskip.

Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í dag fyrir rekstrarárið 2014, að viðstöddum Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.

2% af öllum íslenskum fyrirtækjum

Að þessu sinni fengu 682 fyrirtæki viðurkenningu eða um 2% af öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi. Framúrskarandi fyrirtækjum hefur fjölgað verulega en Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum.

Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að sýna stöðugleika í rekstri og eru líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta. Sérstakir samstarfsaðilar Creditinfo vegna Framúrskarandi fyrirtækja eru Samtök Atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Félag kvenna í atvinnulífinu og Viðskiptaráð Íslands.

Kjarnepli, Hagar og LS Retail fá viðurkenningu

Fjármálaráðherra þremur fyrirtækjum á listanum sérstök viðurkenningarverðlaun, en Kjarnepli fékk viðurkenningu fyrir að vera yngsta fyrirtækið á listanum en það var stofnað í september 2012.

Þá fengu Hagar viðurkenningu fyrir það að vera efst á lista yfir þau fyrirtæki sem koma ný inn í ár en félagið er í níunda sæti á listanum. LS Retail fékk viðurkenningu fyrir að færast upp um flest sæti á milli ára eða um 387 sæti, félagið er nú í 69 sæti á listanum.

Viðskiptablaðið mun fjalla sérstaklega um lista CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki, en aukablað um listann fylgir með Viðskiptablaðinu á morgun.