Samherji og Framherji, færeyskt sjávarútvegsfyrirtæki sem er að hluta til í eigu Samherja, eru nálægt því að ljúka kaupum á 50% hlut í færeyska sjávarútvegsfyrirtækinu Faroe Seafood.

Félögin eiga í samningaviðræðum við Eik banka og Kaupþing og er áætlað að þeim ljúki innan tveggja vikna, samkvæmt frétt á vef IntraFish. Talið er að kaupverð sé lágt, eða um einn milljarður króna, en það skýrist af miklum skuldum. Þær nema um 9,7 milljörðum króna.

Faroe Seafood á og rekur sjö verksmiðjur auk þess að halda veiðirétti. Faroe Seafood komst í vandræði eftir að Eik banki lenti í lausafjárvanda í lok september sl. en bankinn er stærsti kröfuhafi félagsins.