Samherji hf. sendi frá sér tilkynningu í morgun um nýtt stjórnunar- og regluvörslukerfi sem verið er að innleiða í fyrirtækinu.

„Ákvörðun um innleiðingu kerfisins var tekin á grundvelli reynslu af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu,“ segir í tilkynningunni. „Nýja kerfið verður hluti af framtíðarstjórnun Samherja samstæðunnar og mun ná til Samherja og allra dótturfyrirtækja.“

Haft er eftir Björgúlfi Jóhannssyni, starfandi forstjóra, að kerfi þetta verði bygtt á „áhættuskipulagi fyrirtækisins, meðal annars með áherslu á spillingu, efnahagslegar refsiaðgerðir og peningaþvætti“, og stefnt er að því að ljúka innleiðingu þess síðar á þessu ári.

„Þetta kerfi mun gegna lykilhlutverki í nýrri áætlun þar sem við munum krefjast þess að allir starfsmenn taki virkan þátt í ferli til að endurmeta gildi okkar, menningu og starfsvenjur. Við munum síðan innleiða verkferla fyrir áhættumat og siðareglur í samræmi við kerfið,“ segir Björgólfur, sem tók við sem starfandi forstjóri eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson sagði af sér í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um Namibíumálið.