Samherji segir Seðlabankann hafna öllum viðræðum um lok Samherjamálsins og því sé félaginu ekki annarra úrkosta en að höfða mál til heimtu bóta fyrir það sem félagið kallar ólögmæta aðför.

„Stjórn Samherja og ég persónulega höfum því talið nauðsynlegt að beina kæru til lögreglu á hendur Má Guðmundssyni, Arnóri Sighvatssyni, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, Rannveigu Júníusdóttur og Sigríði Logadóttur,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja í bréfi á vef félagsins.

„Hefur kæra verið lögð fram hjá lögreglu. Þetta er ekki sú leið sem við hefðum kosið og höfum reynt að forðast en eins og hér hefur verið rakið er hún óhjákvæmileg.“ Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um snýst deila Samherja við Seðlabankann um húsleit sem gerð var hjá félaginu vegna meintra brota á gjaldeyrislögum.

Hefur Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sagt málið sjö ára herferð bankans gegn sér og fyrirtækinu , en Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefur verið gagnrýndur harðlega af bæði þingmönnum sem og umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við atriði málsins.

Már hefur hins vegar svarað fyrir málið með bréfum og á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, en eins og Viðskiptablaðið sagði fyrstur fjölmiðla frá sauð þar uppúr á milli Baldvins, sonar Þorsteins Más og Más eftir að fundinum hafði verið lokið.

Í bréfi Þorsteins Más segir að 15. apríl síðastliðinn hafi Samherji svo fengið bréf frá lögmanni bankans um að beiðni fyrirtækisins um viðræður um lyktir málsins hafi verið hafnað, en hann vill fá afsökunarbeiðni og bætur upp í útlagðan kostnað.

„Á svipuðum tíma barst mér svo bréf þar sem bankinn kvaðst ekki ætla að endurgreiða sekt sem lögð var á mig persónulega eða hlutast til um að hún verði greidd. Þessi tvö bréf eru lýsandi fyrir framkomu stjórnenda seðlabankans. Mál á hendur Samherja og síðar mér persónulega hafa verið rekin áfram á annarlegum sjónarmiðum.“

Hér má lesa fleiri fréttir um mál Samherja: