Samherji hefur kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá í síðustu viku til Hæstaréttar. Málið snýst um húsleit á vegum Seðlabankans á skrifstofu Samherja á Akureyri og í Reykjavík í mars þar sem hald var lagt á gögn um viðskipti félagsins.

Fram kemur í bréfi frá stjórnendum Samherja til starfsfólks fyrirtækisins í dag, að krafa Samherja í málinu lúti að því að fá aðgerðirnar dæmdar ólögmætar og að Seðlabankinn skili gögnunum sem hald var lagt á. Héraðsdómur hafnaði kröfu Samherja 15. maí síðastliðinn.

Þá segir í bréfinu að Samherjamenn telji aðgerðir Seðlabankans hafa byggst á röngum forsendum. Seðlabankinn hafi hins vegar enn ekki upplýst hvert raunverulegt tilefni rannsóknarinnar var.

Í úrskurði héraðsdóms þar sem húsleit og haldlagning gagna var heimiluð, kom m.a. fram fullyrðing Seðlabankans um að verð á karfa í viðskiptum Samherja til tengdra aðila í Þýskalandi væri verulega lægra en í viðskiptum annarra aðila. Á heimasíðu Samherja er sýnt fram á að forsendur fyrir þeirri fullyrðingu voru rangar.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem nú hefur verið kærður, í viðskiptablaðinu í dag. Hér má sjá frétt sem skrifuð er úr blaðinu.

Nánar á heimasíða Samherja